Hæfni stjórnmálamanna – ábyrgð kjósenda.

Er nauðsynlegt að gera einhverjar lágmarks kröfur, faglegar og jafnvel siðferðilegar, gagnvart þeim sem bjóða sig fram til setu á Alþingi? Ég sat örnámskeið um stjórnarskránna í Opna háskólanum í HR s.l. föstudag en þar varpaði einn fundargesta þessari spurningu fram.

Einn grundvallarþátta lýðræðisins er virk þátttaka sem allra flestra, óháð kyni, menntun, búsetu, reynslu eða annarra aðgreinandi þátta. Ég vil ganga svo langt að segja að hver sú skoðun á málefni og hvert það viðhorf til úrlausna sem haldið er utan við umræðuna rýrir sköpunarkraft lýðræðisins. Jafnvel tillögur sem „flestum“ þykja rangar, fáránlegar, vitlausar, órökstuddar, óviðeigandi og jafnvel ósiðlegar geta falið í sér hluta lausnar eða kveikt hugmynd hjá öðrum að lausn sem við leitum að. Í versta falli gera þessar hugmyndir okkur kleyft að fyrirbyggja eitthvað sem við viljum ekki.

Ég er ekki á því að hægt sé að meina einstaklingum að bjóða sig fram til Alþingis á grundvelli hæfniviðmiða, annarra en kröfuna um lágmarks fjölda meðmælenda með frambjóðenda. Sú ábyrgð hvílir alfarið á okkur kjósendum hverja við síðan veljum í kosningum til þessara starfa. Það að kjósa er og á að vera ábyrgðarhluti sem við göngum til eftir ígrundaða skoðun á þeim einstaklingum og/eða málefnum sem verið er að kjósa um. Á endanum eru það kjósendur sem njóta kosta góðra ákvarðana og bera skaðann af þeim slæmu. Að veita einstaklingi eða málefni afl með atkvæði sínu er því mikill ábyrgðarhlutur.

Í stað þess að setja reglur um kröfu til menntunar, siðferðis, búsetu, trúar, kynferðis eða annarra eiginleika þeirra sem bjóða sig fram til Alþingis eða sveitarstjórna þá væri farsælla að endurskoða það kerfi sem við notum til að velja fulltrúa okkar. Þar líst mér vel á aðferðir sem blanda saman persónukjöri og stefnuvali. Annarsvegar að hver kjósandi greiði atkvæði um þá einstaklinga sem hann vill veita umboð sitt. Hinsvegar að hann kjósi um þá megin stefnu sem hann aðhyllist. Einnig vil ég koma á aðferðum til að auðvelda almenningi aðkomu að ákvarðanatöku heima í héraði sem og á landsvísu með íbúakosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum. Að mínu mati mun fátt auka lýðræðisvitund almennings meira en virk þátttaka í ákvarðanatöku sem hefur bein áhrif á afkomu þess og umhverfi.

Ég er í framboði til setu á Stjórnlagaþingi og óska eftir stuðningi þínum til þeirra krefjandi og sögulegu starfa sem framundan eru. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að móta stjórnarskrá sem er einföld en gefur skýr viðmið um framkvæmd stjórnskipunar íslenska lýðveldisins og grundvallar mannréttindi. Stjórnarskráin þarf einnig að vera þannig orðuð að hinn almenni borgari velkist ekki í vafa um inntak hennar og geti staðið vörð um hana. Ég mun leggja mig allan fram um að vinna af heilindum með hverjum þeim sem til Stjórnlagaþings er kjörinn og að hlusta með opnum hug á þær tillögur sem fram munu koma varðandi þau úrlausnarefni sem ráða þarf framúr. Eiginleikar mínir ásamt reynslu minni og menntun verða svo grunnurinn að þeim ákvörðunum sem ég tek. Það er það traust sem ég leita eftir að þú veitir mér til þessara starfa.

Þór Gíslason.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband