Temprun geistlegs valds.

Aðskilnaður ríkis og kirkju er ofarlega í umræðu margra frambjóðenda til stjórnlagaþings. Ég hef tekið þá afstöðu að vilja EKKI hrófla við ákvæði 62.gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
o 62. gr. Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
o Breyta má þessu með lögum.
Ennfremur segir í 79.gr. 2.mgr.
o Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.
Það er því alveg á hreinu að ekki þarf stjórnarskrár breytingu til að breyta stöðu hinnar evangelísku lútersku kirkju gagnvart ríkinu, að hún verði ekki þjóðkirkja.
Framboð mitt til stjórnlagaþings byggist fyrst og fremst á þeirri sannfæringu að breyta þurfi tilteknum atriðum í stjórnarskránni sem stuðluðu óbeint að því ástandi sem skapaðist hér á landi, gerði það fjármálahrun sem hér varð verra og er að gera þjóðinni erfitt fyrir að finna bestu mögulegu lausnir út úr vandanum. Þessi atriði eru raunveruleg aðgreining framkvæmda- og löggjafarvalds, tímatakmörk á setu ráðherra og þingmana, innleiðing stjórnlagadómstóls og skýr ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þjóðkirkjan og málefni hennar eiga þar enga aðkomu.
Sú vinna sem nú er framundan er mjög mikilvæg fyrir framtíð góðra stjórnarhátta á Íslandi. Til þess að sú vinna fari ekki forgörðum er nauðsynlegt að búa til stjórnarskrá sem þjóðin nær sáttum um og stendur á bakvið. Ég óttast það að verði 62.gr. felld út eða breytt verulega, sem ekki er nauðsyn til, þá muni öll önnur vinna fara fyrir lítið. Það mun ekki nást samstaða meðal þjóðarinnar um stjórnarskrá sem breytir stöðu þjóðkirkjunnar. Því vil ég ekki breyta 62.gr. stjórnarskrárinnar.
Enn að þjóðkirkjunni. Það er skoðun mín að þjóðkirkjan, hversu annars viðbragðssein og stíf sem hún er, er sennilega eitt umburðarlyndasta og framsæknasta trúfélag sem ég veit um. Og það er vegna þess að hún er þjóðkirkja. Við þurfum ekki að horfa lengi í kringum okkur til að sjá hörku og einstrengingshátt „frjálsra“ frúfélaga. Þó svo vissulega um megi benda á hið gagnstæða, sveigjanlegri og umburðarlyndari kirkjur en þjóðkirkjuna, þá er það því miður algengara að meiri heift og ósveigjanleiki sé ríkjandi innan smærri trúfélaga. Er einhver sem heldur að staða samkynhneigðra á Íslandi gagnvart kirkjulegu valdi væri sterkari ef ekki væri um þjóðkirkju að ræða? Ef við lítum til Bandaríkja Norður Ameríku, þar sem engin þjóðkirkja er til, þá vaða uppi allskonar trúfélög, kristin og annarskonar, sem byggja fyrst og fremst á bókstaflegri túlkun Biblíunnar og annarra trúarrita. Þar er hart barist gegn hverskonar lifnaðarháttum og háttalagi sem ekki samrýmist bókinni.
Ég er sannfærður um það að það að hin evangelíska lúterska kirkja er þjóðkirkja temprar „Guðlegt“ vald hennar yfir veraldlegu samfélagi manna. Einmitt vegna þess að um þjóðkirkju er að ræða get ég gagnrýnt kirkjuna og krafist breytinga á háttum hennar. Þess vegna er hún mildari í túlkun bókstafsins og framsækin í störfum sínum fyrir íslenskt samfélag.
Það er engin þörf á að breyta stjórnarskrá til að breyta stöðu þjóðkirkjunnar. Það má gera með lögum sem lögð verða fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil að þjóðin fái að taka afstöðu til þess sérstaklega en ekki sem hluta af miklu stærri pakka í þeim mikilvægu stjórnarskrárbreytingum sem framundan eru.
Mætum á kjörstað og veljum fulltrúa okkar að stjórnlagaþing.
Góðar stundir.
Þór Gíslason - 4492

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband