Beggja skauta byr...

Ég á erfitt með að ná utanum hvað er hvað þessa dagana. Það er frekar auðvelt að verða reiður, áhyggjufullur, óttaslegin og vondaufur. Það sem hellst bylur á augum og eyrum er þess valdandi. Það er því full vinna þessa daga að halda geðinu góðu.

Við hjónin erum nú bæði atvinnulaus og satt að segja ekkert alltof bjart framundan í þeim efnum. Framtíð litlu fjölskyldunnar minnar hefur aldrei verið jafn óútreiknanleg. Eða hvað? Hefur hún nokkurn tíman verið útreiknanleg? Útreiknanleiki hvað framtíðina varðar er að langmestu leiti tálsýn. Það sem hellst hrjáir mig þessa dagana er hrun tálsýnar. Það undarlega í stöðunni er, að undanskyldri baráttu við áður nefndan byl á skilningarvitum, að mér líður betur í dag en mér hefur lengi liðið.

Fyrir fjórum vikum síðan var ég boðaður á fund, fimm mínútum eftir að ég mætti, og tjáð að fyrirtækið væri að skera niður vegna fjármálakrísunnar (sem var þá ekki að fullu komin í ljós). Fimmtán mínútum eftir að ég mætti til vinnu var ég lagður af stað heim með undirritaða starfsloka yfirlýsingu. Heim til minnar ástkæru konu sem missti vinnuna hjá Glitni í maí. Það helltist yfir mig einhver óskiljanleg tilfinning. Það var eins og að tjöldin hafi verið dregin frá leiksviði. Leiksviði sem ég sjálfur stóð á. Fyrir utan kom ég auga á það sem var raunverulegt. Það sem skipti máli.

Ég hef verið að taka þátt í kapphlaupi, með vindinn í bakið. Ég samdi ekki reglurnar, hafði ákveðnar efasemdir um þær, en gerði litlar sem engar athugasemdir við þær. Ég tók þátt, vildi með, sá í hyllingum þá glæstu framtíð sem beið við markið. Milljón á mánuði fyrir okkur hjónin. Hóflegt ekki satt. Miðað við allt og allt á þessum síðustu og bestu tímum. Og svo kom milljónin en ekki markið. Meira, lengra, hraðar. Hindrun í vegi, ástin féll við, ég áfram, haltur, reiður. Skell á vegg. Sá hann aldrei. Bara var þarna allt í einu. Ljós.Ég hafði ekki mikið til að bera í þetta kapphlaup annað en vindinn í bakið. Það er fínt að hafa vindinn í bakið, er það ekki?Ég var þeirrar dásemdar aðnjótandi fyrir skömmu að prófa skútusiglingar í heila viku. Þar komst ég að því að það er mikil kúnst að sigla með beggja skauta byr. Að sigla undan vindi þannig að hægt er að hafa stórseglið á bakborð en fokkuna á stjórnborð. Það krefst mikillar færni, sívöktun og stöðugrar aðlögunar eftir vindi. Ég held það sé eins með lífsgæðakapphlaup með vindinn í bakið. En þegar meðbyrinn er góður er hætta á að slaka á eftirlitinu, hvolfa skútunni. Er það kannski það sem gerðist hér? Það gerðist hjá mér.Góðar stundir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband