Hagsmunatengsl og helstu stefnumál.

Nafn: Þór Gíslason
Fæðingarár: 9. janúar 1964
Starf og/eða menntun: Verkefnastjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins / MPM (Master of Project Management) frá HÍ; BA-HHS (Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði) frá Háskólanum á Bifröst; Sveinspróf í ljósmyndun frá Iðnskólanum í Reykjavík og Diploma of Photography frá Fanshaw College, Kanada.
Hagsmunatengsl: Félagi í Rauða kross Íslands, Frímúrari.
Tengsl við flokka eða hagsmunasamtök: Ég var flokksbundin sjálfstæðismaður en hef verið óflokksbundinn síðan 2004; Móðir mín Katrín Eymundsdóttir var bæjarfulltrúi á Húsavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn; Systir mín, Soffía Gísladóttir var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hún er kvænt Guðmundi Baldvin Guðmundssyni, bæjarfulltrúa á Akureyri; Skyldur Árna Páli Árnasyni viðskiptaráðherra í 3. lið; Tengdur Halldóri Blöndal mægðum; Pétur Blöndal, ritstjóri Sunnudags Moggans og ég erum systkinabörn; Þóra Magnea Magnúsdóttir, eiginkona Hermanns Valssonar í stjórn VG Reykjavík og ég erum systkinabörn.
Ertu í einhverjum nefndum, ráðum eða stjórnum? Nei
Annað: Ég er landsbyggðar maður í hjarta mínu og vil verja hagsmuni byggðar í öllu landinu.

Hvers vegna viltu á stjórnlagaþing? 
Ég býð mig fram til setu á Stjórnlagaþingi með vilja til þess að stuðla að opnum og heiðarlegum umræðum á milli ólíkra einstaklinga með margvísleg sjónarmið. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að móta stjórnarskrá sem er einföld en gefur skýr viðmið um framkvæmd stjórnskipunar og grundvallar mannréttindi. Framsetning stjórnarskrárinnar og orðalag þarf að vera með þeim hætti að hinn almenni borgari velkist ekki í vafa um inntak hennar og geti staðið vörð um hana um langa framtíð. Allt framansagt mun ég hafa að leiðarljósi við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og tel að eiginleikar mínir, menntun og reynsla nýtist vel við þá krefjandi vinnu sem framundan er. 

Hverjar eru helstu hugmyndir þínar um breytingar á stjórnarskránni?

Ég vil sjá skýrari skil á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Með hvaða hætti það næst best fram mun ráðast í vinnu á stjórnlagaþingi. Ég hallast þó í þá átt að kjósa beri höfuð framkvæmdavaldsins sér kosningu og að sá aðili sitji í umboði þjóðarinnar en ekki Alþingis. Val ráðherra (ég tel að fimm ráðuneyti auk forseta / forsætisráðherra sé nægjanlegt) ætti að vera á faglegum forsendum og með samþykki Alþingis. Ég vil skoða allar hugmyndir að því hvernig hægt er að fjarlægja framkvæmdavald af löggjafarsamkundunni en tel að raunverulegur aðskilnaður fáist ekki fyrr en framkvæmdavald verður kosið á öðrum tíma en löggjafarvaldið.

Ég vil skýrt umboð þjóðarinnar til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök lög og finnst aðferð Svisslendinga um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna (hér á landi t.d. 10 til 20% sem er ca. 25- 50 þús. manns) geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu og hafi allt að 100 daga frá lagasetningu þar til tilskildum fjölda er náð. Þá vil ég einnig færa ákvörðunarvald meira heim í hérað og að ríkið afhendi sveitarfélögum alfarið umsjá með verkefnum eins og heilbrigðis-, mennta-, samgöngu- og skipulagsmála. Skattheimta verði meira á forræði héraða en ríkis. Íbúakosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur sem hafa bein áhrif á afkomu og umhverfi almennings er að mínu mati besti aflvaki lýðræðisvakningar sem svo nauðsynleg er á Íslandi.

Ég vil ekki hrófla við ákvæðum stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna. Ég tel að ekkert geti verið skaðlegra þeirri viðleitni að ná sátt um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni, varðandi stjórnskipulag og þjóðaratkvæðagreiðslur, en það að taka á þessum tíma út ákvæði 62. gr. stjórnarskrárinnar. Þess ber að geta hér að 62. grein má breyta með lagasetningu. Hinsvegar segir í 2.mgr. 79.gr. að slík lög skuli bera undir atkvæði allra kosningabærra manna. Það er því einfalt fyrir löggjafarvaldið að breyta því ákvæði hvenær sem er ef talið er að vilji meirihluta þjóðarinnar standi til þess. Einnig væri hægur vandi að koma skipan trúmála að sem megin viðfangi kosninga til Alþingis.

Hefur þú lesið stjórnarskrá Íslands? Já.
Hefur þú lesið stjórnarskrár annarra ríkja? Hef gluggað í nokkrar en enga lesið í heild.
Hefur þú lesið skýrslu rannsóknarnefndar alþingis? Ekki í heild. Hefti 8. um siðferði og stjórnarhætti hef ég farið yfir nokkuð ítarlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Sæll Þór og velkominn í pólitíkina.  Manstu annars eftir mér? Þótt ég sé ánægður með þína skoðun gegn aðskilnaði ríkis og kirkju langaði mig að vita hug þinn með inngöngu Íslands í ESB.

Ragnar Kristján Gestsson, 8.11.2010 kl. 07:50

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband