Góð kjörsókn stuðlar að árangursríku Stjórnlagaþingi.

Laugardaginn 27. nóvember verður kosið í fyrsta sinn til Stjórnlagaþings og þar að auki hreinni persónukosningu. Þessi kjördagur er því lýðræðislega sögulega stund. Ég er stoltur af því að fá að taka þátt í þessari athöfn. Ég er ánægður með að búa í landi þar sem ég fæ tækifæri til að bjóða mig fram á mínum eigin forsendum til jafn mikilvægra starfa og endurskoðunar stjórnarskrárinnar.
Ég býð mig fram til starfa á stjórnlagaþingi með það að leiðarljósi að stuðla að heiðarlegum og opnum skoðanaskiptum milli ólíkra einstaklinga með fjölbreytta reynslu og mismunandi bakgrunn. Það er einlæg trú mín að þannig sé lýðræðið skapandi afl sem leiðir okkur að bestu mögulegu lausn á hverju því verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Forsenda öflugs, skilvirks og árangursríks Stjórnlagaþings er góð kjörsókn. Með góðri kjörsókn eru meiri líkur til þess að fulltrúar á Stjórnlagaþingi séu þverskurður þjóðarinnar. Þar með er stuðlað að samræðu milli ólíkra sjónarmiða og líkur aukast á að niðurstaðan verði stjórnarskrá sem þjóðin öll getur sameinast um.
Þau mál sem ég mun mæla fyrir eru þessi helst:
- raunveruleg skipting milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Þjóðin kjósi sérstaklega leiðtoga framkvæmdavaldsins. Sá aðili njóti stuðnings meirihluta þjóðarinnar.
- skýrar reglur um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Kalla megi eftir þjóðaratkvæðagreiðslu með tilteknu hlutfalli kjósenda og/eða með tilteknum minnihluta Alþingis.
- staða þjóðkirkjunnar verði EKKI breytt. Stjórnarskráin heimilar nú þegar að 62.gr. sé breitt með lögum og þjóðaratkvæðagreiðslu.
- aukið ákvörðunar- og skattlagningarvald heim í hérað. Það er forsenda frekari jöfnunar atkvæðavægis.
Ég óska eftir stuðningi þínum til starfa á Stjórnlagaþingi 2011. Ég tel að eiginleikar mínir, reynsla og menntun geri mig hæfan til þeirra mikilvægu starfa.
Tryggjum góða kjörsókn – stuðlum að árangursríku Stjórnlagaþingi.
Góðar stundir.
Þór Gíslason - 4492

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband