Óásættanleg afskipti stjórnmálaflokka af kosningum til Stjórnlagaþings.

Ég var að henda einum frambjóðanda út af listanum mínum fyrir kosningarnar á morgun. Þótti það reyndar hund fúlt þar sem ég var búin að kynna mér frambjóðendur vel og orðinn ánægður með valið. Það er hinsvegar alveg klárt í mínum huga hvað varðar þessar kosningar að ég kýs EKKI frambjóðanda sem tiltekinn flokkur hampar.
Ég er reyndar hund fúll...já...bál reiður yfir þessari helvítis afskiptasemi stjórnmálaflokks af þessari lýðræðislegu tilraun okkar til að velja einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Pólitískur þroski stjórnmálaafla hér á landi er akkúrat enginn. Stöðug helvítis afskipti af öllu. Þó svo sá listi sem kominn er fram eigi uppruna sinn á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins þá er ég ekki í nokkrum vafa um að þetta viðgengst víðar. Og ekki bara hjá stjórnmálaöflum. Líka öðrum þrýstihópum hverju nafni sem þau eru kölluð. Það er sannfæring alltof margra að almenningur bara geti ekki tekið upplýsta ákvörðun. Best sé að stýra vali fólks til að tryggja að „rétt“ niðurstaða náist fram.
Mætum á kjörstað á morgun og tryggjum góða kjörsókn. Veljum fjölbreyttan hóp venjulegs fólks til þess að takast á við það merkilega verkefni að endurskoða stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og gefum stjórnmálflokkunum frí frá þeim störfum um tíma.
Þór Gíslason - 4492

Temprun geistlegs valds.

Aðskilnaður ríkis og kirkju er ofarlega í umræðu margra frambjóðenda til stjórnlagaþings. Ég hef tekið þá afstöðu að vilja EKKI hrófla við ákvæði 62.gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
o 62. gr. Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
o Breyta má þessu með lögum.
Ennfremur segir í 79.gr. 2.mgr.
o Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.
Það er því alveg á hreinu að ekki þarf stjórnarskrár breytingu til að breyta stöðu hinnar evangelísku lútersku kirkju gagnvart ríkinu, að hún verði ekki þjóðkirkja.
Framboð mitt til stjórnlagaþings byggist fyrst og fremst á þeirri sannfæringu að breyta þurfi tilteknum atriðum í stjórnarskránni sem stuðluðu óbeint að því ástandi sem skapaðist hér á landi, gerði það fjármálahrun sem hér varð verra og er að gera þjóðinni erfitt fyrir að finna bestu mögulegu lausnir út úr vandanum. Þessi atriði eru raunveruleg aðgreining framkvæmda- og löggjafarvalds, tímatakmörk á setu ráðherra og þingmana, innleiðing stjórnlagadómstóls og skýr ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þjóðkirkjan og málefni hennar eiga þar enga aðkomu.
Sú vinna sem nú er framundan er mjög mikilvæg fyrir framtíð góðra stjórnarhátta á Íslandi. Til þess að sú vinna fari ekki forgörðum er nauðsynlegt að búa til stjórnarskrá sem þjóðin nær sáttum um og stendur á bakvið. Ég óttast það að verði 62.gr. felld út eða breytt verulega, sem ekki er nauðsyn til, þá muni öll önnur vinna fara fyrir lítið. Það mun ekki nást samstaða meðal þjóðarinnar um stjórnarskrá sem breytir stöðu þjóðkirkjunnar. Því vil ég ekki breyta 62.gr. stjórnarskrárinnar.
Enn að þjóðkirkjunni. Það er skoðun mín að þjóðkirkjan, hversu annars viðbragðssein og stíf sem hún er, er sennilega eitt umburðarlyndasta og framsæknasta trúfélag sem ég veit um. Og það er vegna þess að hún er þjóðkirkja. Við þurfum ekki að horfa lengi í kringum okkur til að sjá hörku og einstrengingshátt „frjálsra“ frúfélaga. Þó svo vissulega um megi benda á hið gagnstæða, sveigjanlegri og umburðarlyndari kirkjur en þjóðkirkjuna, þá er það því miður algengara að meiri heift og ósveigjanleiki sé ríkjandi innan smærri trúfélaga. Er einhver sem heldur að staða samkynhneigðra á Íslandi gagnvart kirkjulegu valdi væri sterkari ef ekki væri um þjóðkirkju að ræða? Ef við lítum til Bandaríkja Norður Ameríku, þar sem engin þjóðkirkja er til, þá vaða uppi allskonar trúfélög, kristin og annarskonar, sem byggja fyrst og fremst á bókstaflegri túlkun Biblíunnar og annarra trúarrita. Þar er hart barist gegn hverskonar lifnaðarháttum og háttalagi sem ekki samrýmist bókinni.
Ég er sannfærður um það að það að hin evangelíska lúterska kirkja er þjóðkirkja temprar „Guðlegt“ vald hennar yfir veraldlegu samfélagi manna. Einmitt vegna þess að um þjóðkirkju er að ræða get ég gagnrýnt kirkjuna og krafist breytinga á háttum hennar. Þess vegna er hún mildari í túlkun bókstafsins og framsækin í störfum sínum fyrir íslenskt samfélag.
Það er engin þörf á að breyta stjórnarskrá til að breyta stöðu þjóðkirkjunnar. Það má gera með lögum sem lögð verða fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil að þjóðin fái að taka afstöðu til þess sérstaklega en ekki sem hluta af miklu stærri pakka í þeim mikilvægu stjórnarskrárbreytingum sem framundan eru.
Mætum á kjörstað og veljum fulltrúa okkar að stjórnlagaþing.
Góðar stundir.
Þór Gíslason - 4492

Góð kjörsókn stuðlar að árangursríku Stjórnlagaþingi.

Laugardaginn 27. nóvember verður kosið í fyrsta sinn til Stjórnlagaþings og þar að auki hreinni persónukosningu. Þessi kjördagur er því lýðræðislega sögulega stund. Ég er stoltur af því að fá að taka þátt í þessari athöfn. Ég er ánægður með að búa í landi þar sem ég fæ tækifæri til að bjóða mig fram á mínum eigin forsendum til jafn mikilvægra starfa og endurskoðunar stjórnarskrárinnar.
Ég býð mig fram til starfa á stjórnlagaþingi með það að leiðarljósi að stuðla að heiðarlegum og opnum skoðanaskiptum milli ólíkra einstaklinga með fjölbreytta reynslu og mismunandi bakgrunn. Það er einlæg trú mín að þannig sé lýðræðið skapandi afl sem leiðir okkur að bestu mögulegu lausn á hverju því verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Forsenda öflugs, skilvirks og árangursríks Stjórnlagaþings er góð kjörsókn. Með góðri kjörsókn eru meiri líkur til þess að fulltrúar á Stjórnlagaþingi séu þverskurður þjóðarinnar. Þar með er stuðlað að samræðu milli ólíkra sjónarmiða og líkur aukast á að niðurstaðan verði stjórnarskrá sem þjóðin öll getur sameinast um.
Þau mál sem ég mun mæla fyrir eru þessi helst:
- raunveruleg skipting milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Þjóðin kjósi sérstaklega leiðtoga framkvæmdavaldsins. Sá aðili njóti stuðnings meirihluta þjóðarinnar.
- skýrar reglur um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Kalla megi eftir þjóðaratkvæðagreiðslu með tilteknu hlutfalli kjósenda og/eða með tilteknum minnihluta Alþingis.
- staða þjóðkirkjunnar verði EKKI breytt. Stjórnarskráin heimilar nú þegar að 62.gr. sé breitt með lögum og þjóðaratkvæðagreiðslu.
- aukið ákvörðunar- og skattlagningarvald heim í hérað. Það er forsenda frekari jöfnunar atkvæðavægis.
Ég óska eftir stuðningi þínum til starfa á Stjórnlagaþingi 2011. Ég tel að eiginleikar mínir, reynsla og menntun geri mig hæfan til þeirra mikilvægu starfa.
Tryggjum góða kjörsókn – stuðlum að árangursríku Stjórnlagaþingi.
Góðar stundir.
Þór Gíslason - 4492

Skipting veraldlegs valds.

Ég hef hug á að koma að breytingum á stjórnarskránni sem ég tel mikilvægar fyrir stjórnskipan landsins. Þó svo að ég telji ekki að stjórnarskráin eigi sök á því sem fór úrskeiðis hér á landi, þá kom hún heldur ekki í veg fyrir þá þætti sem stuðluðu að hruninu. Þar tel ég að fyrst og fremst þurfi að bæta úr aðskilnaði framkvæmdavalds og löggjafarvalds, innleiða nýtt dómstig Stjórnskipunardómstóls og setja tímamörk á hversu lengi einstaklingar mega gegna embættum á löggjafarþingi og fara með framkvæmdavald.
Með því að skera vel á milli og löggjafar valdþátta tel ég að gera megi Alþingi öflugra. Fyrir það fyrsta, öflugra í lagasetningu sem byggir á hagsmunum og þörfum þjóðarinnar frekar en duttlungum sitjandi valdhafa í því að auðvelda þeim að koma sínum vilja fram. Í öðru lagi mun það gera Alþingi öflugra í eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdavaldinu og opinberum stofnunum. Það á að vera eitt helsta hlutverk Alþingis að spyrja framkvæmdavaldið og stofnanir samfélagsins spurninga og krefjast svara.
Þá er ekki síður mikilvægt að koma á þriðja dómsstigi hér á landi sem hefði það hlutverk fyrst og fremst að skoða lagasetningar með tilliti til stjórnarskrárinnar. Skipan hæstaréttar- og stjórnlagadómara ætti að vera á faglegum forsendum, eftir umsögn fagnefndar tilnefndri af Alþingi, háskólasamfélaginu og dómurum. Tilnefningar skulu bindandi fyrir þann sem með skipunarvald fer.
Tímamörk þurfa að vera á setu framkvæmdavaldsins. Ég tel það einn af höfuð orsakavöldum hrunsins að sömu aðilar sátu við völd of lengi samfellt. Þegar svo háttar hættir öllu stjórnkerfinu við að verða einsleitt og gagnrýni lýtið á eigin verk. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að hafa eintómt „JÁ“ fólk í kringum sig. Það er að mínu mati hollt fyrir stjórnkerfið að stokka upp reglulega.
Þó það komi stjórnarskrá ekki við þá tel ég að góður stjórnmálamaður ætti að hafa pólitískan andstæðing í hópi ráðgjafa sinna. Það ber vott um pólitískan þroska að leita bestu mögulegu lausna frekar en að vinna eingöngu að því að ryðja braut þröngra hagsmuna.
Ég tel að framkvæmdavaldið megi ekki sitja lengur en í tvö kjörtímabil. Ég vil þó ekki útiloka að sömu aðilar geti tekið við aftur eftir eins kjörtímabils hvíld ef þjóðin kýs svo. Eins ætti að vera háttað með Alþingismenn. Þó tel ég að ekki sé óeðlilegt að tímamörk þar yrðu þrjú til fjögur kjörtímabil, 12 til 16 ár.
Með þessum aðgerðum tel ég að valdhöfum verði beint í farveg samræðna og lausnmiðaðra starfa. Meirihlutaræði naums meirihluta er aðeins lágmarksviðmið lýðræðislegrar stjórnskipunar. Það er betra að sem flestir séu sammála frekar en naumur meirihluti. Lýðræðið er skapandi afl ef við stöndum rétt að því og komum sem flestum sjónarmiðum að við ákvarðanatöku.
Ég bíð mig fram til starfa á Stjórnlagaþingi með það að markmiði að stuðla að opnum og heiðarlegum umræðum milli ólíkra einstaklinga með fjölbreytt viðhorf. Stefnumál mín eru ekki meitluð í stein heldur fyrst og fremst það sem ég vil koma á framfæri. Ég mun leggja mikið uppúr því að finna bestu mögulegu lausnir að hverju því verkefni sem við stöndum frami fyrir í samvinnu við aðra Stjórnlagaþingmenn.
Góðar stundir.
Þór Gíslason - 4492

Hagsmunatengsl og helstu stefnumál.

Nafn: Þór Gíslason
Fæðingarár: 9. janúar 1964
Starf og/eða menntun: Verkefnastjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins / MPM (Master of Project Management) frá HÍ; BA-HHS (Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði) frá Háskólanum á Bifröst; Sveinspróf í ljósmyndun frá Iðnskólanum í Reykjavík og Diploma of Photography frá Fanshaw College, Kanada.
Hagsmunatengsl: Félagi í Rauða kross Íslands, Frímúrari.
Tengsl við flokka eða hagsmunasamtök: Ég var flokksbundin sjálfstæðismaður en hef verið óflokksbundinn síðan 2004; Móðir mín Katrín Eymundsdóttir var bæjarfulltrúi á Húsavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn; Systir mín, Soffía Gísladóttir var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hún er kvænt Guðmundi Baldvin Guðmundssyni, bæjarfulltrúa á Akureyri; Skyldur Árna Páli Árnasyni viðskiptaráðherra í 3. lið; Tengdur Halldóri Blöndal mægðum; Pétur Blöndal, ritstjóri Sunnudags Moggans og ég erum systkinabörn; Þóra Magnea Magnúsdóttir, eiginkona Hermanns Valssonar í stjórn VG Reykjavík og ég erum systkinabörn.
Ertu í einhverjum nefndum, ráðum eða stjórnum? Nei
Annað: Ég er landsbyggðar maður í hjarta mínu og vil verja hagsmuni byggðar í öllu landinu.

Hvers vegna viltu á stjórnlagaþing? 
Ég býð mig fram til setu á Stjórnlagaþingi með vilja til þess að stuðla að opnum og heiðarlegum umræðum á milli ólíkra einstaklinga með margvísleg sjónarmið. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að móta stjórnarskrá sem er einföld en gefur skýr viðmið um framkvæmd stjórnskipunar og grundvallar mannréttindi. Framsetning stjórnarskrárinnar og orðalag þarf að vera með þeim hætti að hinn almenni borgari velkist ekki í vafa um inntak hennar og geti staðið vörð um hana um langa framtíð. Allt framansagt mun ég hafa að leiðarljósi við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og tel að eiginleikar mínir, menntun og reynsla nýtist vel við þá krefjandi vinnu sem framundan er. 

Hverjar eru helstu hugmyndir þínar um breytingar á stjórnarskránni?

Ég vil sjá skýrari skil á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Með hvaða hætti það næst best fram mun ráðast í vinnu á stjórnlagaþingi. Ég hallast þó í þá átt að kjósa beri höfuð framkvæmdavaldsins sér kosningu og að sá aðili sitji í umboði þjóðarinnar en ekki Alþingis. Val ráðherra (ég tel að fimm ráðuneyti auk forseta / forsætisráðherra sé nægjanlegt) ætti að vera á faglegum forsendum og með samþykki Alþingis. Ég vil skoða allar hugmyndir að því hvernig hægt er að fjarlægja framkvæmdavald af löggjafarsamkundunni en tel að raunverulegur aðskilnaður fáist ekki fyrr en framkvæmdavald verður kosið á öðrum tíma en löggjafarvaldið.

Ég vil skýrt umboð þjóðarinnar til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök lög og finnst aðferð Svisslendinga um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna (hér á landi t.d. 10 til 20% sem er ca. 25- 50 þús. manns) geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu og hafi allt að 100 daga frá lagasetningu þar til tilskildum fjölda er náð. Þá vil ég einnig færa ákvörðunarvald meira heim í hérað og að ríkið afhendi sveitarfélögum alfarið umsjá með verkefnum eins og heilbrigðis-, mennta-, samgöngu- og skipulagsmála. Skattheimta verði meira á forræði héraða en ríkis. Íbúakosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur sem hafa bein áhrif á afkomu og umhverfi almennings er að mínu mati besti aflvaki lýðræðisvakningar sem svo nauðsynleg er á Íslandi.

Ég vil ekki hrófla við ákvæðum stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna. Ég tel að ekkert geti verið skaðlegra þeirri viðleitni að ná sátt um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni, varðandi stjórnskipulag og þjóðaratkvæðagreiðslur, en það að taka á þessum tíma út ákvæði 62. gr. stjórnarskrárinnar. Þess ber að geta hér að 62. grein má breyta með lagasetningu. Hinsvegar segir í 2.mgr. 79.gr. að slík lög skuli bera undir atkvæði allra kosningabærra manna. Það er því einfalt fyrir löggjafarvaldið að breyta því ákvæði hvenær sem er ef talið er að vilji meirihluta þjóðarinnar standi til þess. Einnig væri hægur vandi að koma skipan trúmála að sem megin viðfangi kosninga til Alþingis.

Hefur þú lesið stjórnarskrá Íslands? Já.
Hefur þú lesið stjórnarskrár annarra ríkja? Hef gluggað í nokkrar en enga lesið í heild.
Hefur þú lesið skýrslu rannsóknarnefndar alþingis? Ekki í heild. Hefti 8. um siðferði og stjórnarhætti hef ég farið yfir nokkuð ítarlega.


Hæfni stjórnmálamanna – ábyrgð kjósenda.

Er nauðsynlegt að gera einhverjar lágmarks kröfur, faglegar og jafnvel siðferðilegar, gagnvart þeim sem bjóða sig fram til setu á Alþingi? Ég sat örnámskeið um stjórnarskránna í Opna háskólanum í HR s.l. föstudag en þar varpaði einn fundargesta þessari spurningu fram.

Einn grundvallarþátta lýðræðisins er virk þátttaka sem allra flestra, óháð kyni, menntun, búsetu, reynslu eða annarra aðgreinandi þátta. Ég vil ganga svo langt að segja að hver sú skoðun á málefni og hvert það viðhorf til úrlausna sem haldið er utan við umræðuna rýrir sköpunarkraft lýðræðisins. Jafnvel tillögur sem „flestum“ þykja rangar, fáránlegar, vitlausar, órökstuddar, óviðeigandi og jafnvel ósiðlegar geta falið í sér hluta lausnar eða kveikt hugmynd hjá öðrum að lausn sem við leitum að. Í versta falli gera þessar hugmyndir okkur kleyft að fyrirbyggja eitthvað sem við viljum ekki.

Ég er ekki á því að hægt sé að meina einstaklingum að bjóða sig fram til Alþingis á grundvelli hæfniviðmiða, annarra en kröfuna um lágmarks fjölda meðmælenda með frambjóðenda. Sú ábyrgð hvílir alfarið á okkur kjósendum hverja við síðan veljum í kosningum til þessara starfa. Það að kjósa er og á að vera ábyrgðarhluti sem við göngum til eftir ígrundaða skoðun á þeim einstaklingum og/eða málefnum sem verið er að kjósa um. Á endanum eru það kjósendur sem njóta kosta góðra ákvarðana og bera skaðann af þeim slæmu. Að veita einstaklingi eða málefni afl með atkvæði sínu er því mikill ábyrgðarhlutur.

Í stað þess að setja reglur um kröfu til menntunar, siðferðis, búsetu, trúar, kynferðis eða annarra eiginleika þeirra sem bjóða sig fram til Alþingis eða sveitarstjórna þá væri farsælla að endurskoða það kerfi sem við notum til að velja fulltrúa okkar. Þar líst mér vel á aðferðir sem blanda saman persónukjöri og stefnuvali. Annarsvegar að hver kjósandi greiði atkvæði um þá einstaklinga sem hann vill veita umboð sitt. Hinsvegar að hann kjósi um þá megin stefnu sem hann aðhyllist. Einnig vil ég koma á aðferðum til að auðvelda almenningi aðkomu að ákvarðanatöku heima í héraði sem og á landsvísu með íbúakosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum. Að mínu mati mun fátt auka lýðræðisvitund almennings meira en virk þátttaka í ákvarðanatöku sem hefur bein áhrif á afkomu þess og umhverfi.

Ég er í framboði til setu á Stjórnlagaþingi og óska eftir stuðningi þínum til þeirra krefjandi og sögulegu starfa sem framundan eru. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að móta stjórnarskrá sem er einföld en gefur skýr viðmið um framkvæmd stjórnskipunar íslenska lýðveldisins og grundvallar mannréttindi. Stjórnarskráin þarf einnig að vera þannig orðuð að hinn almenni borgari velkist ekki í vafa um inntak hennar og geti staðið vörð um hana. Ég mun leggja mig allan fram um að vinna af heilindum með hverjum þeim sem til Stjórnlagaþings er kjörinn og að hlusta með opnum hug á þær tillögur sem fram munu koma varðandi þau úrlausnarefni sem ráða þarf framúr. Eiginleikar mínir ásamt reynslu minni og menntun verða svo grunnurinn að þeim ákvörðunum sem ég tek. Það er það traust sem ég leita eftir að þú veitir mér til þessara starfa.

Þór Gíslason.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband