Fjölbreytt menning gerir lífið litríkara.

Þessi pistill Mörtu Gunnarsdóttur (http://blogg.visir.is/skandala/?vi=5158#post-5158) varð mér tilefni til þessara skrifa.

Mannréttindi, umburðarlyndi og fjölbreytni mannlegs samfélags eru allt ástæður til að fagna. Fjölbreytt menning gerir lífið litríkara og ánægjulegra að mínu mati. Við hjónin höfum farið undanfarin ár að njóta þess margbreytileika sem boðið er uppá í gleðigöngunni. Ég hef aldrei orðið var við að verið sé að AUGLÝSA KYNHVÖT. Ég hef aftur á móti orðið var við mikla gleði, fjölbreytta tónlist, mikinn dans og frábæra búninga sem lýsa miklu hugmyndaflugi og lifandi sköpunargáfu.
Það fer um mig notaleg tilfinning á hverju ári þegar ég tek þátt í gleðigöngunni vegna þess að ég upplifi mjög sterkt að ég lifi á sögulegum tímum mannréttinda umbóta. Og ég skynja það að við, þessi fámenna þjóð í norður Atlantshafi, er í fararbroddi þessara umbóta. Þær umbætur sem ég er að tala um eru í áttina að því að einhvern dag í framtíðinni munu atriði eins og kyn, kynþáttur, trú og kynhneigð ekki vera notuð til að „flokka“ fólk. Við munum ekki þurfa að nota orðasambönd eins og „...þetta fólk...“ um þá sem eru á einhvern hátt öðruvísi, líkamlega eða menningarlega. Það verða heldur ekki mismunandi reglur og lög til um fólk sem þannig háttar til um. Við munum öll njóta þess að vera manneskjur.
Það er alltaf ástæða til að fagna fjölbreyttri menningu. Hinsegin dagar er menningarhátíð. Gleðigangan er hápunktur hennar. Við höldum uppá menningu í margvíslegu formi. Tónlist, leiklist, myndlist, dans, fótbolti og íþróttir allskonar, svo ekki sé minnst á menningu ungs fólks, fatlaðra, aldraðra og innflytjenda.
Það vill nefnilega þannig til að menning skapast og þróast í því umhverfi sem fólk ver tíma sínum. Við „venjulegir“ ´Íslendingar eigum okkar menningu sem við höfum þróað. Þegar við komum saman og njótum hennar og bjóðum til fagnaðar erum við fyrst og fremst að fagna lífinu. Þegar við „venjulega“ fólkið bíður til listahátíða af ýmsum toga erum við ekki að „AUGLÝSA KYNHVÖT“ okkar heldur að fagna fjölbreytileika þess að vera manneskja.
Góðar stundir.


Þriðji kosturinn.

Það sannast aftur og aftur hvað Sigmar í Kastljósinu er lélegur í svona viðtölum. Hann bara hefur ekki þekkingu eða kunnáttu til að taka viðtöl sem þessi. Hann endar alltaf í því að hjakka í sama farinu og spyrja um sama hlutinn aftur og aftur.

Gunnar Páll má eiga það að hann kemur fram og talar um málin af hreinskilni, verandi í mjög erfiðri stöðu. Það er hinsvegar ekki rétt hjá Gunnari Páli að ekki hafi verið nema um tvær færar leiðir. Ef skoðaðar eru röksemdir fyrir leið tvö, "Að líta svo á að bankinn væri traustur og að hann myndi komast í gegnum erfiðleikana" og að eftir smá lækkun hlutabréfa "...risi hlutabréfaverðið og veð bankans gagnvart umræddum skuldum yrðu fullnægjandi á ný." mátti vel fara aðra leið sem ALLIR hluthafar hefðu geta notið. Hún hefði falist í því að stjórn ákveddi að fara ekki í veðköll þegar hlutabréf lækkuðu, heldur bíða, þar sem bankinn taldist traustur og myndi standast erfiðleika, og leifa markaðnum að jafna sig. Þá hefði ekki þurft að hvetja einn eða neinn til að selja og gera upp skuldir (sem vafalaust hefði kallað á hrun bankans) né fella niður skuldir starfsmanna, sem er í besta falli afar hæpin leið með tilliti til hlutahafa og annarra skuldunauta bankans. Ef þessi leið hefði verið farin og bankinn hefði staðið af sér veðrið, hefði allt verið sem áður, bankinn með sín veð og allir hlutaðeigandi með mannorðið í lagi.

Góðar stundir.


mbl.is Ekki hægt að taka aðra ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beggja skauta byr...

Ég á erfitt með að ná utanum hvað er hvað þessa dagana. Það er frekar auðvelt að verða reiður, áhyggjufullur, óttaslegin og vondaufur. Það sem hellst bylur á augum og eyrum er þess valdandi. Það er því full vinna þessa daga að halda geðinu góðu.

Við hjónin erum nú bæði atvinnulaus og satt að segja ekkert alltof bjart framundan í þeim efnum. Framtíð litlu fjölskyldunnar minnar hefur aldrei verið jafn óútreiknanleg. Eða hvað? Hefur hún nokkurn tíman verið útreiknanleg? Útreiknanleiki hvað framtíðina varðar er að langmestu leiti tálsýn. Það sem hellst hrjáir mig þessa dagana er hrun tálsýnar. Það undarlega í stöðunni er, að undanskyldri baráttu við áður nefndan byl á skilningarvitum, að mér líður betur í dag en mér hefur lengi liðið.

Fyrir fjórum vikum síðan var ég boðaður á fund, fimm mínútum eftir að ég mætti, og tjáð að fyrirtækið væri að skera niður vegna fjármálakrísunnar (sem var þá ekki að fullu komin í ljós). Fimmtán mínútum eftir að ég mætti til vinnu var ég lagður af stað heim með undirritaða starfsloka yfirlýsingu. Heim til minnar ástkæru konu sem missti vinnuna hjá Glitni í maí. Það helltist yfir mig einhver óskiljanleg tilfinning. Það var eins og að tjöldin hafi verið dregin frá leiksviði. Leiksviði sem ég sjálfur stóð á. Fyrir utan kom ég auga á það sem var raunverulegt. Það sem skipti máli.

Ég hef verið að taka þátt í kapphlaupi, með vindinn í bakið. Ég samdi ekki reglurnar, hafði ákveðnar efasemdir um þær, en gerði litlar sem engar athugasemdir við þær. Ég tók þátt, vildi með, sá í hyllingum þá glæstu framtíð sem beið við markið. Milljón á mánuði fyrir okkur hjónin. Hóflegt ekki satt. Miðað við allt og allt á þessum síðustu og bestu tímum. Og svo kom milljónin en ekki markið. Meira, lengra, hraðar. Hindrun í vegi, ástin féll við, ég áfram, haltur, reiður. Skell á vegg. Sá hann aldrei. Bara var þarna allt í einu. Ljós.Ég hafði ekki mikið til að bera í þetta kapphlaup annað en vindinn í bakið. Það er fínt að hafa vindinn í bakið, er það ekki?Ég var þeirrar dásemdar aðnjótandi fyrir skömmu að prófa skútusiglingar í heila viku. Þar komst ég að því að það er mikil kúnst að sigla með beggja skauta byr. Að sigla undan vindi þannig að hægt er að hafa stórseglið á bakborð en fokkuna á stjórnborð. Það krefst mikillar færni, sívöktun og stöðugrar aðlögunar eftir vindi. Ég held það sé eins með lífsgæðakapphlaup með vindinn í bakið. En þegar meðbyrinn er góður er hætta á að slaka á eftirlitinu, hvolfa skútunni. Er það kannski það sem gerðist hér? Það gerðist hjá mér.Góðar stundir.

Á leið í Seðlabankann??

Það skyldi þó ekki vera að hrókeringar séu hafnar til að undirbúa skipti í Seðlabanka.

Góðar stundir :-)


mbl.is Tryggvi Þór hættur sem efnahagsráðgjafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf til Árna Pálls Árnasonar og annarra fluttningsmanna frumvarps til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks.

Ákvað að skella hér inn tölvupósti sem ég sendi á frænda minn, alþingismanninn og einn flutningsmanna frumvarpsins til breytinga á áfengislöggjöfinni. Þetta bréf hefði svo sem mátt fara á alla flutningsmenn frumvarpsins.

Til fróðleiks má nálgast fumvarpið hér og Áfengislög, 1998 nr. 75 15. júní.  má sjá hér eftir meginmál bréfsins. Skýrsluna sem ég vitna til er hægt að nálgast neðst í síðustu færslu.

Sæll frændi.

Varðandi frumvarp það sem þú er meðflutningsmaður að langaði mig til að vekja athygli þína á meðfylgjandi skýrslu sem unnin er fyrir sænsku lýðheilsustofnunina. Vel má vera að þú hafir þegar kynnt þér hana og vel ef svo er.

Ég held við séum að komast á þann punkt hér á landi að almannavilji krefjist þess að ríkiseinkasölu af áfengi verði aflétt, hversu skynsamlegt sem það annars er. Það hvílir hinsvegar mikil ábyrgð á ykkur sem með löggjafarvaldið farið að búa svo um hnútana að sem minnstum skaða valdi. Frumvarpið, eins og það er sett fram nú, gerir það ekki nægilega vel. Það ber fyrst og fremst of mikinn keim af hagsmunapólitík eigenda stórmarkaða og matvöruverslana. Af hverju að útiloka suma smásöluaðila en ekki aðra eins og gert er í 10. grein frumvarpsins?

Sveitarstjórn er óheimilt að veita smásöluleyfi fyrirtækjum sem stunda blandaða smásöluverslun aðra en rekstur stórmarkaða eða matvöru- eða nýlenduvöruverslunar, svo sem starfsemi sem fellur undir eftirfarandi ÍSAT-flokka: 50.11.4 (söluturnar), 50.11.5 (söluturnar með ís eða samlokugerð), 50.11.6 (matsöluvagnar) og 52.12 (önnur blönduð smásala). Þá er sveitarstjórn óheimilt að veita smásöluleyfi til blaðsöluturna, sbr. ÍSAT-flokk 52.26, og myndbandaleigna, sbr. ÍSAT-flokk 71.40.1.“

Hver eru rökin fyrir þessu? Er það óábyrgara lið sem rekur þá staði sem hér eru útilokaðir? Eða er verið að tryggja tilteknum aðilum þessa verslun frekar en öðrum? Er einhver þörf á að tiltaka stórmarkaði eða matvöru- eða nýlendumarkaði sérstaklega sem aðila sem mega selja? Mega þeir sem reka blandaða smásöluverslun, eins og ég gerði á Húsavík á sínum tíma með ljósmyndastofu, ljósmyndavörur, ramma, skartgripi ofl., ekki reka áfengisútsölu? Ef svo, af hverju? Færi ver um áfengið í þannig verslun eða er aðila sem rekur slíka verslun síður treystandi fyrir því?

Eins og ástandið er í dag, þar sem mikill meirihluti afgreiðslufólks á kassa í matvöruverslunum er undir tvítugu, er þá eitthvað líklegra að þær verslanir ráði frekar við að afmarka sölu við réttan aldur viðskiptamanns.  Munu verslanir bregðast við með því að hafa bara hluta kassana til afgreiðslu á áfengi eins og sumstaðar er með tóbakið? Við getum rétt ímyndað okkur hvernig ástandið yrði við þá kassa á tilteknum dögum. Hver er þá ávinningurinn af þessu aukna frelsi?

Afgreiðslutími til kl 20. er líka hæpinn þar sem verslanir eins og 10/11 og 11/11 fengju samkvæmt þessu frumvarpi heimild til sölu áfengis. En eins og við vitum þá eru þær margar hverjar opnar allan sólarhringinn og þannig verslanir verða oftar en aðrar fyrir vopnuðum (og óvopnuðum) ránum. Því vakna þær spurningar hjá mér; Hvernig verður búið að þessari vöru utan „leyfilegs“ afgreiðslutíma og hvað með almennar reglur er lúta að umgjörð þeirra verslana sem með þennan varning höndla? Munu innbrot í verslanir aukast með tilkomu mikils magns áfengis í hillum og á lagerum verslana?

Mér finnst það einnig ótækt að ætla sveitarfélögum að setja um þetta nánari reglur. Það er augljóst að hagsmunaaðilar eiga greiðan aðgang að sveitarstjórnarmönnum og eru sjálfir oft í sæti sveitarstjórnarmanna. Það býður uppá ýmiskonar hagsmunaárekstra og vesen að hafa hlutina með þeim hætti sem frumvarpið segir til um. Svo má búast við því að sveitarfélög sæju sér hag í því að hafa liðlegri reglur hjá sér en  í nágrannasveitarfélaginu í þeim tilgangi að glæða verslun á staðnum. Það er sjálfsagt að sveitarfélögin sjái um að gefa út leyfin, en reglunum, sem leyfin eru háð, er best komið í höndum löggjafans og að eitt gangi yfir alla.

Það frumvarp sem þú hefur nú lagt nafn þitt við er hrákasmíð fyrir jafn mikilvægt mál og hér um ræðir. Nær væri að þið þingmenn legðuð í það alvöru vinnu að endurskoða áfengislögin frá grunni í staðin fyrir að vera með bútasaum sem þennan. Ég er farinn að sætta mig við það að af þessu verði fyrr en seinna. En þá þarf að vanda verkið, takmarka sölu áfengis við afmarkaðar  búðir eins og nú er t.d. gert með lyfsölur innan veggja matvöruverslana, starfsfólk uppfylli skilyrði um aldur og lágmarks þekkingu í meðferð þessarar viðkvæmu vöru og að umgjörð verslana sem fá áfengissöluleyfi sé með þeim hætti að það hvetji ekki til rána eða innbrota.

Málflutningur fylgismanna má heldur ekki vera þannig að lítið sé gert úr þeim skaða sem verða mun. Áfengi, bjór og léttvín þar með talið, er ekki og verður aldrei venjuleg neysluvara. Þetta er efni sem hefur áhrif á heilastarfsemi og dómgreind manna. Það er ekki einn einasti ábyrgur, óháður aðili sem segir annað en að afnám ríkiseinkasölu og aukið aðgengi að áfengi muni valda aukinni neyslu. Ekki halda það léttvægt. Og þar sem ákvarðanir sem þessar fjalla ekki aðeins um skammtímahagsmuni seljenda (aukin neysla) og neytenda (aukið aðgengi) heldur líka um heilsufar þjóðar til lengri tíma litið, þá verðið þið að tala hreint út. Það þarf að svara tilteknum spurningum.

Hvernig á að taka á aukinni unglinganeyslu? Hvernig á að taka á aukinni neyslu annarra fíkniefna (rannsóknir sýna að jákvæð fylgni er með aukinni heildarneyslu þjóðar á áfengi og neyslu annarra fíkniefna).  Hvernig á að taka á auknum ölvunarakstri og þeim slysum sem af því hlýst? Hvernig á að taka á aukningu líkamsmeiðinga, vinnutaps, þunglyndis og jafnvel sjálfsvíga? Hvernig á að taka á aukningu áfengistengdra sjúkdóma eftir 20 til 30 ár?

Það er þetta sem allar vísindalegar rannsóknir segja okkur til að sé langlíklegasta útkoman. Tökumst á við það. Fegrum þetta ekki um of. Viðurkennum að við erum tilbúin að fórna lífi, heilsu, öryggi og afkomu tiltekins fjölda einstaklinga í þeim tilgangi að auðvelda fólki að nálgast áfengi (þó aðgengi sé gott í dag) og veita fjármununum sem í neysluna fer um vasa einkaaðila (sem bera engan kostnað af skaðanum) en ekki ríkisins sem þó ber allan kostnað af því aukna álagi sem verður á stofnanir samfélagsins til lengri tíma litið.

 

Hafðu það svo sem allra best og skilaðu góðri kveðju til þinna góðu foreldra.

Nú er ég fluttur í þitt kjördæmi og þætti vænt um að geta kosið þig á þing seinna ;-)

Góðar stundir.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vísindalegar niðurstöður segja...

Og á þeim skal taka mark. Það er krafa okkar varðandi hvalveiðar, ekki satt.

Þeir sem greinargóða þekkingu hafa á áfengismálum eru á þeirri skoðun að það sama gildi um Íslendinga og aðrar þjóðir hvað aukið aðgengi að áfengi varðar, það eykur neyslu. Enda tilgangurinn með auknu aðgengi enginn annar. Málefnalegur rökstuðningur þeirra sem fyrir málinu berjast er helst sá að kalla þá sem tala gegn frumvarpinu afturhaldsseggi, forsjárhyggjumenn og þaðan af verra. Einnig hefur nokkuð borið á því að lítið sé gert úr niðurstöðum vísindalegra rannsókna og því jafnvel haldið fram að annað muni eiga við um Íslendinga en aðrar þjóðir.

Á Andríki má sjá umfjöllun um umfjöllun á vef SÁÁ. Viðleitni þeirra að nálgast og skoða það sem vitnað er til á síðu SÁÁ er endasleppt enda hefur þeim ekki dottið í hug að skoða heimasíðu þess aðila sem lét gera og birti niðurstöður rannsóknarinnar, sænsku lýðheilsustofnunina (fyri neðan færslu í heild sinni sem Harold Holder.pdf). Holl lesning hverjum sem vill kynna sér vísindalegar rannsóknir um afleiðingar afnáms ríkiseinkasölu á áfengi. Þar er vel útskýrt hvernig niðurstöður (miðað við varkárustu spá) eru fengnar sem SÁÁ gerir að umfjöllunarefni. Andríkismenn, án þess að hafa skoðað það sem SÁÁ leggur til grundvallar, afskrifa málatilbúnaðinn sem staðhæfingar "...úr lausu lofti gripnar." 

Öllu alvarlegri er útúrsnúningur Andríkismanna á mynd sem þeir birta, úr rannsókn gerð af Sven Andreassen ofl, og tekin er úr öllu samhengi, máli sínu til stuðnings (fyrir neðan færslu sem Sven Andreasson ofl. Estimates of harm.pdf). Andríkismenn haganlega klippa skýringartexta frá mynd en gefa þess í stað furðulega útskýringu á henni og staðhæfa svo að "Spáin [eigi] sér enga stoð í veruleikanum." Ef  þeir hefðu haft fyrir því að fara yfir rannsóknina og skoða forsendur sem fyrir myndinni liggja hefðu þeir kannski skilið um hvað hún fjallaði. Myndin sýnir svo ekki er um villst að spálíkanið miðað við sölutölur(hvítur hringur) hefur góða fylgni við raun dauðsföll karlmanna(svartur hringur). Þriðja línan (hvítir tíglar / kassar)er spá um dauðsföll miðað við áætlaða heildarneyslu að óskráðri neyslu (smygli, heimaframleiðslu og innflutningi ferðamanna) meðtalinni. Þau frávik segja lítið annað en að sú neysla sé stórlega ofáætluð. Það eru hinsvegar ekki síður athyglisverðar myndirnar þrjár sem Andríkismenn kjósa að birta ekki. Þær sýna (eins og sú fyrsta) að spálíkanið er að virka vel miðað við rauntölur ef undan er skilin dánartíðni kvenna, en þar vanáætlar spálíkanið. Ég vona að hér sé um misskilning að ræða hjá Andríkismönnum en ekki vísvitandi rangfærslur á vísindaniðurstöðum, málatilbúnaði þeirra til framdráttar.

Heilbrigðisráðherra, hæstvirtur, hafði þau orð í útvarpsfréttum í dag að hann teldi umræðuna ekki hafa verið nógu málefnalega. Þar rataðist kjöftugum satt orð á munn. En þar er ekki við andstæðinga frumvarpsins að sakast. Þeir hafa lagt fram mikið af vísindalegum gögnum og álitum sérfræðinga máli sínu til stuðnings. Meðmælendur þusa hinsvegar hver í kapp við annan með ómálefnalegum aðdróttunum á hvern þann sem vill vekja fólk til umhugsunar um hvað rannsóknir segja að gætu orðið afleiðingarnar ef frumvarpið verður samþykkt. Þegar að heilbrigði þjóðar kemur til langs tíma litið, viljum við frekar byggja niðurstöður okkar á vel grunduðum vísindlegum niðurstöðum frekar en skammtímasjónarmiðum stjórnmálamanna sem vilja skapa sér tímabundnar vinsældir og þeirra sem huga að skammtíma hagsmunum kaupmanna sem bera engan kostnað af því sem aflaga fer.

Góðar stundir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband