4.7.2007 | 23:59
"Þú ert lélegasti bloggari sem ég þekki !!!"
Svo mörg voru þau orð.
Það var mín ástkæra Dúna sem lét þau falla í gærkvöldi. Henni leiðist orðið að líta sömu gömlu færsluna í hvert skipti sem hún fer inná síðuna í leit að gullkornum úr mínum ranni.
Nú á að gera bragarbót.
Loksins kominn á skrið með BA ritgerðina og farinn að hafa trú á að þetta eigi eftir að ganga. Verð samt sem áður að halda mig vel að verki ef þetta á að hafast. Ekki nema tæpar fimm vikur til stefnu.
Svo er kallinn farinn að stunda strætó. Hef ekki notað hann jafn mikið síðan ég stundaði MH, í bláum skugga, með misgóðum árangri. Það hefur lítið breyst (sko strætó, blái skugginn er farinn). Merkilegt hvað þeim gengur illa að auka notkun þessara samgönguhátta þrátt fyrir ítrekaðar hækkanir á fargjöldum og lengri biðtíma eftir vögnum. Neytendur eru bara ekki að átta sig á kostunum sem þessum hagræðingum fylgir. Svo er nú skipulagið líka svo vel út hugsað hjá köppunum sem þessu stýra. Leið eitt, mín leið, liggur meðal annars um hinn snilldarlega skipulagða gamla miðbæ Kópavogs, Hamraborgina. Þegar þaðan er ekið, rétt uppúr heila og hálfa tímanum, þá vill svo til að tveir aðrir vagnar, leið 2 og leið 4, leggja þaðan af stað á nákvæmlega sama tíma. Svo aka þessir vagnar í rassinum á hver öðrum sem leið liggur að Miklubraut, þar sem þeir reyndar splitta, en enda svo allir á sama punkti, Hlemmi. Væri nú ekki einfalt til að bæta þetta, þó ekki væri nema fyrir Kópavogsbúa, og hafa eitthvað aðeins á milli þeirra þannig að það væri hægt að komast þessa leið oftar enn á hálftíma fresti. Það eru jú þrír vagnar að fara þessa leið. Það ætti því að vera hægt að hafa vagn á tíu mínútna fresti úr Hamraborginni háu og fögru.
Ég er svo sem ekki neinn sérfræðingur á þessu sviði, þekki ekki mikið til annarra leiða og veit ekki hvort þessi tiltekna breyting hefði það í för með sér að einhver lengri bið yrði á tengingum við aðra vagna. Það má vel vera. En ég er viss um hvað mig varðar að þó svo ég þyrfti að bíða eitthvað í skýli milli vagna, þá er það skárra þegar ferðir eru tíðari heldur en þegar þær eru stopular eins og nú er.
Tölvutæknin er líka nýung frá því ég var síðast fastagestur strætó. Nú get ég smellt mér á netið(bus.is) slegið inn heimilisfang brottfararstaðar og tíma + áfangastað og fyrr en varir poppa upp á skjáinn ýtarlegar upplýsingar um hvar næsta vagn er að finna, hvenær hann er, hvar skal skipta (ef þess er þörf) og áætlaðan biðtíma eftir vagni. But wait. There is more!!! upplýsingar um hversu langt ég þurfi að ganga að heiman á biðstöð, milli vagna og frá vagni að áfangastað. Svo er náttúrulega áætlaður komutími skráður líka. Og ekki sakar að yfirleitt koma upp fleiri en einn valmöguleiki, sá fljótasti fyrst. Þetta er gott. Nú þarf bara að laga annað.
Hvernig er það annars með alla þessa sem er svo umhugað um náttúruna okkar og gróðurhúsaáhrifin. Væri ekki til vinnandi að ná upp góðum stemmara fyrir strætó eins og tekist hefur með stemminguna gegn álverum. Það er kannski ekki eins auðvelt að vinna því fylgis. Það er svo auðvelt að berjast fyrir einhverju þegar það kostar mann sjálfan engar fórnir.
Góðar stundir.