25.10.2007 | 15:24
Bréf til Árna Pálls Árnasonar og annarra fluttningsmanna frumvarps til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks.
Ákvað að skella hér inn tölvupósti sem ég sendi á frænda minn, alþingismanninn og einn flutningsmanna frumvarpsins til breytinga á áfengislöggjöfinni. Þetta bréf hefði svo sem mátt fara á alla flutningsmenn frumvarpsins.
Til fróðleiks má nálgast fumvarpið hér og Áfengislög, 1998 nr. 75 15. júní. má sjá hér eftir meginmál bréfsins. Skýrsluna sem ég vitna til er hægt að nálgast neðst í síðustu færslu.
Sæll frændi.
Varðandi frumvarp það sem þú er meðflutningsmaður að langaði mig til að vekja athygli þína á meðfylgjandi skýrslu sem unnin er fyrir sænsku lýðheilsustofnunina. Vel má vera að þú hafir þegar kynnt þér hana og vel ef svo er.
Ég held við séum að komast á þann punkt hér á landi að almannavilji krefjist þess að ríkiseinkasölu af áfengi verði aflétt, hversu skynsamlegt sem það annars er. Það hvílir hinsvegar mikil ábyrgð á ykkur sem með löggjafarvaldið farið að búa svo um hnútana að sem minnstum skaða valdi. Frumvarpið, eins og það er sett fram nú, gerir það ekki nægilega vel. Það ber fyrst og fremst of mikinn keim af hagsmunapólitík eigenda stórmarkaða og matvöruverslana. Af hverju að útiloka suma smásöluaðila en ekki aðra eins og gert er í 10. grein frumvarpsins?
Sveitarstjórn er óheimilt að veita smásöluleyfi fyrirtækjum sem stunda blandaða smásöluverslun aðra en rekstur stórmarkaða eða matvöru- eða nýlenduvöruverslunar, svo sem starfsemi sem fellur undir eftirfarandi ÍSAT-flokka: 50.11.4 (söluturnar), 50.11.5 (söluturnar með ís eða samlokugerð), 50.11.6 (matsöluvagnar) og 52.12 (önnur blönduð smásala). Þá er sveitarstjórn óheimilt að veita smásöluleyfi til blaðsöluturna, sbr. ÍSAT-flokk 52.26, og myndbandaleigna, sbr. ÍSAT-flokk 71.40.1.Hver eru rökin fyrir þessu? Er það óábyrgara lið sem rekur þá staði sem hér eru útilokaðir? Eða er verið að tryggja tilteknum aðilum þessa verslun frekar en öðrum? Er einhver þörf á að tiltaka stórmarkaði eða matvöru- eða nýlendumarkaði sérstaklega sem aðila sem mega selja? Mega þeir sem reka blandaða smásöluverslun, eins og ég gerði á Húsavík á sínum tíma með ljósmyndastofu, ljósmyndavörur, ramma, skartgripi ofl., ekki reka áfengisútsölu? Ef svo, af hverju? Færi ver um áfengið í þannig verslun eða er aðila sem rekur slíka verslun síður treystandi fyrir því?
Eins og ástandið er í dag, þar sem mikill meirihluti afgreiðslufólks á kassa í matvöruverslunum er undir tvítugu, er þá eitthvað líklegra að þær verslanir ráði frekar við að afmarka sölu við réttan aldur viðskiptamanns. Munu verslanir bregðast við með því að hafa bara hluta kassana til afgreiðslu á áfengi eins og sumstaðar er með tóbakið? Við getum rétt ímyndað okkur hvernig ástandið yrði við þá kassa á tilteknum dögum. Hver er þá ávinningurinn af þessu aukna frelsi?Afgreiðslutími til kl 20. er líka hæpinn þar sem verslanir eins og 10/11 og 11/11 fengju samkvæmt þessu frumvarpi heimild til sölu áfengis. En eins og við vitum þá eru þær margar hverjar opnar allan sólarhringinn og þannig verslanir verða oftar en aðrar fyrir vopnuðum (og óvopnuðum) ránum. Því vakna þær spurningar hjá mér; Hvernig verður búið að þessari vöru utan leyfilegs afgreiðslutíma og hvað með almennar reglur er lúta að umgjörð þeirra verslana sem með þennan varning höndla? Munu innbrot í verslanir aukast með tilkomu mikils magns áfengis í hillum og á lagerum verslana?
Mér finnst það einnig ótækt að ætla sveitarfélögum að setja um þetta nánari reglur. Það er augljóst að hagsmunaaðilar eiga greiðan aðgang að sveitarstjórnarmönnum og eru sjálfir oft í sæti sveitarstjórnarmanna. Það býður uppá ýmiskonar hagsmunaárekstra og vesen að hafa hlutina með þeim hætti sem frumvarpið segir til um. Svo má búast við því að sveitarfélög sæju sér hag í því að hafa liðlegri reglur hjá sér en í nágrannasveitarfélaginu í þeim tilgangi að glæða verslun á staðnum. Það er sjálfsagt að sveitarfélögin sjái um að gefa út leyfin, en reglunum, sem leyfin eru háð, er best komið í höndum löggjafans og að eitt gangi yfir alla.
Það frumvarp sem þú hefur nú lagt nafn þitt við er hrákasmíð fyrir jafn mikilvægt mál og hér um ræðir. Nær væri að þið þingmenn legðuð í það alvöru vinnu að endurskoða áfengislögin frá grunni í staðin fyrir að vera með bútasaum sem þennan. Ég er farinn að sætta mig við það að af þessu verði fyrr en seinna. En þá þarf að vanda verkið, takmarka sölu áfengis við afmarkaðar búðir eins og nú er t.d. gert með lyfsölur innan veggja matvöruverslana, starfsfólk uppfylli skilyrði um aldur og lágmarks þekkingu í meðferð þessarar viðkvæmu vöru og að umgjörð verslana sem fá áfengissöluleyfi sé með þeim hætti að það hvetji ekki til rána eða innbrota.
Málflutningur fylgismanna má heldur ekki vera þannig að lítið sé gert úr þeim skaða sem verða mun. Áfengi, bjór og léttvín þar með talið, er ekki og verður aldrei venjuleg neysluvara. Þetta er efni sem hefur áhrif á heilastarfsemi og dómgreind manna. Það er ekki einn einasti ábyrgur, óháður aðili sem segir annað en að afnám ríkiseinkasölu og aukið aðgengi að áfengi muni valda aukinni neyslu. Ekki halda það léttvægt. Og þar sem ákvarðanir sem þessar fjalla ekki aðeins um skammtímahagsmuni seljenda (aukin neysla) og neytenda (aukið aðgengi) heldur líka um heilsufar þjóðar til lengri tíma litið, þá verðið þið að tala hreint út. Það þarf að svara tilteknum spurningum.
Hvernig á að taka á aukinni unglinganeyslu? Hvernig á að taka á aukinni neyslu annarra fíkniefna (rannsóknir sýna að jákvæð fylgni er með aukinni heildarneyslu þjóðar á áfengi og neyslu annarra fíkniefna). Hvernig á að taka á auknum ölvunarakstri og þeim slysum sem af því hlýst? Hvernig á að taka á aukningu líkamsmeiðinga, vinnutaps, þunglyndis og jafnvel sjálfsvíga? Hvernig á að taka á aukningu áfengistengdra sjúkdóma eftir 20 til 30 ár?
Það er þetta sem allar vísindalegar rannsóknir segja okkur til að sé langlíklegasta útkoman. Tökumst á við það. Fegrum þetta ekki um of. Viðurkennum að við erum tilbúin að fórna lífi, heilsu, öryggi og afkomu tiltekins fjölda einstaklinga í þeim tilgangi að auðvelda fólki að nálgast áfengi (þó aðgengi sé gott í dag) og veita fjármununum sem í neysluna fer um vasa einkaaðila (sem bera engan kostnað af skaðanum) en ekki ríkisins sem þó ber allan kostnað af því aukna álagi sem verður á stofnanir samfélagsins til lengri tíma litið.
Hafðu það svo sem allra best og skilaðu góðri kveðju til þinna góðu foreldra.
Nú er ég fluttur í þitt kjördæmi og þætti vænt um að geta kosið þig á þing seinna ;-)
Góðar stundir.
Athugasemdir
Meira aðgengi kallar örugglega á önnur vandamál.
Marinó Már Marinósson, 25.10.2007 kl. 15:41
Sæll frændi minn Árni Páll
Ég finn mig knúinn til að taka undir orð Þórs frænda okkur og hvetja þig til að endurskoða stuðning þinn við þetta frumvarp eins og það er lagt fram. Það er svo óábyrgt og ófaglegt að leggja svona fram án þess að gera ráð fyrir afleiðingum. Án þess að taka til greina vísindalegar rannsóknir og kannanir sem fagfólk í löndunum allt í kringum okkur hefur sett fram. Heilbrigðisvandi af völdum áfengis hefur stóraukist í Finnlandi eftir að stjórnvöld þar í landi léttu á áfengislöggjöfinni og það er eftirsjá þar og á Bretlandseyjum vegna núverandi ástands. Ótímabær dauðsföll af völdum áfengisneyzlu hafa stóraukist í Finnlandi og Skotlandi.
Burtséð frá augljósum heilbrigðisvanda finnst mér mikilvægt, eins og Þór frændi bendir á, að Ríkið verði ekki af þeim tekjum sem af áfengissölu hljótast því sýnt er að útgjöld aukast. Eins er vafasamt að nánast færa nokkrum aðilum áfengisverzlun á Íslandi á silfurfati.
Þegar frumvarpið gerir ráð fyrir einhverjum raunhæfum áætlunum í forvarnar-, meðferðar- og félagslegum málefnum auk löggæslu má athuga með stuðning. Menn verða að geta gengið frá svona máli berandi höfuðið hátt og horft með sátt til baka þegar fram líða stundir.
Með kveðju og ósk um varfærni, þinn frændi
Páll Geir Bjarnason
Páll Geir Bjarnason, 25.10.2007 kl. 18:29