Góðir dagar.

Það hefur verið nóg að gera undanfarið. Það líður að lokum skólavistar minnar hér á Bifröst og Dúna mín, elskuleg, fer að byrja í nýju starfi hjá Glitni eftir rúman mánuð. Þar með er að ljúka tæplega fimm ára veru fjölskyldunnar hér í Norðurárdalnum. Það hefur verið stefna okkar allan þann tíma að snúa aftur til Húsavíkur. En því miður er staðan þannig fyrir norðan að ekki er mikið um störf af því taginu sem fólk eins og við, sem búið er að leggja rúmlega 10 milljónir í námið (þegar eingöngu eru talin lán frá LÍN en ekki tekið tillit til launataps og annars tilfallins kostnaðar), gerir kröfu til. Við gætum án efa fengið einhverja vinnu fyrir norðan, en við lögðum ekki út í þessa fjárfestingu sem námið er til þess að fara í sama launafarið og við vorum í áður en við lögðum af stað.

Nú höfum við því fest kaup á íbúð í hinum „hýra Hafnarfyrði“, eins og segir í ljóðinu. Nánar tiltekið að Breiðvangi í norðurbænum. Þar höfum við til umráða 135 fm. auk 10 fm. geymslu í kjallara. Íbúðin er 5 herbergja og ákaflega rúmgóð og björt og ekki spillir útsýnið. Við sjáum Bláfjöll í austrinu, Reykjanesfjallgarðinn, með Keili í broddi fylkingar, í suðurátt og til vesturs sjáum við útá Faxaflóa, til Óla og Dórit á Bessastöðum og svo kórónar Snæfellsjökull myndina til norðvesturs. Við vorum svo lánsöm að íbúðin var laus við undirskrift kaupsamnings og þess vegna höfum við hafist handa við að mála og skipta um ljós og skápa. Að öðru leiti er íbúðin í góðu standi en eldhúsið bíður betri (fjárhagslegra) tíma.

Það eru spennandi tímar framundan. Ný vinna, ný íbúð í nýju umhverfi með nýju fólki og nýjum möguleikum. Nýtt líf. Ekki ósvipað því sem var fyrir réttum fimm árum þegar við höfðum tekið ákvörðun um að fara á Bifröst. Það var einmitt um svipað leiti árs sem við renndum okkur hingað suður yfir heiðar til þess að Dúna gæti farið í viðtal út af umsókninni um skólavist. Hingað var gott að koma og hér hefur verið gott að vera. Við munum kveðja Bifröst með söknuði. Og það er gott, því söknuður, þessi angurværa tilfinning, á sér rætur í góðum minningum um skemmtilega tíma með yndislegu fólki í gefandi starfi og fallegu umhverfi.

Góðar stundir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Már Barðason

Ekki veitir af einhverjum til að fylgjast vel með þeim Óla og Dorrit. Treysti ykkur fullkomlega til verksins.

Helgi Már Barðason, 1.5.2007 kl. 14:00

2 Smámynd: Hlöðver Ingi Gunnarsson

velkominn í blogg-heiminn

Hlöðver Ingi Gunnarsson, 1.5.2007 kl. 17:01

3 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Neinei, bara hálf Bifröst komin á moggabloggið?

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 3.5.2007 kl. 18:36

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

Já á Bifröst er gott að vera.

Fannar frá Rifi, 5.5.2007 kl. 00:20

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband